Gefðu þér tíma til að anda!

15/08/2013 10:21

Lífið er yndislegt hljómar oft í útvarpinu sérstaklega fyrir verslunarmannahelgina og sannarlega er lífið yndislegt í margbreytileika sínum. því er svo nauðsynlegt að einblína á þær dásemdir sem lífið hefur upp á að bjóða en festast ekki í fari neikvæðni og nöldurs. Allir verða fyrir mótbárum vissulega mismunandi miklum en allir verða líka fyrir dásemdum lífsins og það ber að þakka og muna.

Nú hefst sá tími ársins þegar dimmir fyrr á kvöldin og mörgum finnst eins og sumarið hafi svikið okkur en þá er að muna góðu dagana, sjá að tréin eru ennþá græn og hafa vaxið gríðarlega i þessu árferði, grænmetið gómsætt og fullt af því alla vega í mínum garði!

Tilveran er svo mikið það sem við erum upptekin af hverju sinni, svolítið eins og stór Google leitarvél, þú setur inn leitarorð og færð mörg þúsund síður. Heilinn starfar á svipaðan hátt þú setur inn hugsun og færð þúsundir aðrar um sama efni, því er mikilvægt að einbeita sér að því sem er gott sem hægt er að sjá gleðina í og þakka fyrir.

Gefðu þér tíma til að huga að því sem þú getur þakkað fyrir, gefðu þér tíma á hverjum degi bara til að vera og njóta. Svolítil hugleiðsla um allt og ekkert er nærandi fyrir líkama og sál. Bara vera án þess að gera nokkuð,   ekki hlusta á tónlist, ekki horfa á sjónvarp, ekki vera á facebook, ekki senda sms eða snapchat í svona 10 mínútur á dag. Ef þú vilt getur þú sett inn ákveðna setningu eða orð sem þú villt einbeita þér að. Í hugleiðslu eru möntrur oft notaðar og þá gjarnan á sanskrit þar sem þær tengja þig ekki við neitt sem þú þekkir í daglegu lífi. Þú getur prófan möntruna So Hum sem þýðir ég er!

Eigðu dásamlegan dag!