Hamingjuríkt páskafrí!

17/04/2014 12:13

Dásamegt páskafrí framundan, mitt markmið er að njóta í núinu þessa daga, vera meira og hlusta betur. Eftir góða morgungöngu með eiginmanni og hundum í dásamlegu umhverfi, og sjá og hlusta á náttúruna vakna hægt og rólega þrátt fyrir snjókomu og vetrarlegt útlit. Brumhnappar loðvíðisins stækka og loðna og veita vissu fyrir langþráðu vori. Heyra í stelknum, hrossagauknum og sjá rjúpuna enn alhvíta hefja sig til flugs. Ef þetta er ekki eitthvað til að gleðjast yfir og njóta þá veit ég ekki hvað þarf til, nema helst að opna augun fyrir dásemdum dagsins. Eftir gönguna drifum við okkur í pottinn og fengum þar einkatónleika frá skógarþrestinum okkar en hann var í trjágrein við hliðina og söng svo fallega að það var ekki annað hægt en að fyllast lotningu yfir lífinu. Allt er þetta svo nálægt okkur og hluti af því að vera og njóta. Stundum þarf ekki annað en kyrrð og að beina athyglinni að því sem er beint fyrir framan nefið á okkur, þar er hamingjan í einfeldni sinni fyrir alla að njóta. Þar sem ég pára þessar línur eftir hugleiðslu dagsins uppfull af gleði með sofandi þreytta hunda get ég ekki annað en fyllst þakklæti yfir því að vera til. Gleðilega páska:)