Vorið góða grænt og hlýtt...

21/05/2014 14:25

Ég elska vorið, þetta dásamlega tímabil þar sem allt er að vakna til lífsins og fuglarnir eflast í hamingju sinni að vera til. Græni liturinn er dásamlegur og vísar beint í hjartastöðina okkar og tilfinningarnar. Ég fyllist þakklæti og samkennd með jörðinni og gróandanum. Allt í garðinum mínum vekur hjá mér gleði, fallegu túlípanarnir, grasið og vorverkin. Að sá fræjum í grænmetiskassana mína er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri, fylgjast daglega með hvernig allt spírar og kíkir upp úr jörðinni á ótrúlega skömmum tíma. Ég mæli sannarlega með því að setja niður fræ t.d. klettasalat svakalega hollt og svo duglegt að vaxa að þú þarft ekki einu sinni gróðurkassa bara nálægt húsvegg og helst í suður. Njótum þess að vera til með náttúrunni og öndum okkur inn í sumarið. Að sitja útí og bara að horfa á allt þetta græna gerir kraftaverk, leyfa sér að anda og vera í núinu er allt sem þarf til að finna fyrir hamingjunni:) Fíflarnir eru afskaplega ánægðir með lífið og eru í flestum görðum og ófáir sem blóta þeim í sand og ösku en ég held það sé ástæða fyrir veru þeirra í hverjum garði. Þeir eru nefnilega svo agalega hollir sem grænt salat eða steikja þá á pönnu með kjöti eða fiski bragðast ótrúlega vel. Hægt að nota óútsprungna knúppa og steikja þá upp úr smjöri verða svipaðir á bragðið og sveppir. Nota blöðin í græna hristinginn svakalega hollt og gott og kostar ekki neitt:) Algert heilsufæði sem kostar ekki krónu. Fiflar eru örvandi og hreinsandi fyrir lifur og nýru innihalda  línólsýru og A, B, C og D-vítamín. Blöðin (fersk eða þurrkuð), innihalda fítósteról, tarrasín, kólín, C-vítamín og dálítið af tanníni. Á Ítalíu eru fíflablöð seld í búðum eins og hvert annað grænmeti en þeir nota fíflablöð í marga rétti hjá sér.