Vorið og heilsan

03/04/2014 16:23

Það er vor í lofti, það er nokkuð víst enda Tjaldurinn kominn og farinn að spígspora við ánna agalega hamingusamur, fuglarnir syngja meira og páskaliljurnar mínar farnar að kíkja. Ég veit ekkert dásamlegra en vorið þegar allt lifnar við. En hvað með heilsuna lifnar hún líka við svona bara alveg af sjálfum sér eða hvað? því miður er það nú þannig að við verðum að hafa fyrir heilsunni. Allt sem við gerum, borðum og jafnvel hugsum hefur áhrif á líðan okkar. En vorið er einmitt sá tími sem er svo góður til að setja sér nokkur einföld markmið sem hafa svo mikil áhrif á líðan okkar. T.d að borða góðan morgunverð en ekki að grípa eitthvað í flýti á leiðinni út. Góður morgunmatur byggir okkur upp fyrir daginn og kemur í veg fyrir sykurlöngun. Ristað brauð og kaffi er ekkert sérlega uppbyggilegt, né Coco Puffs. Hafragrauturinn stendur alltaf fyrir sínu er mettandi og fullur af trefjum sérstaklega ef þú notar Tröllahafra. Svo einfalt og gott og tekur 2 mínútur: 1 dl hafrar 3 dl vatn soðið saman bæta útí t.d. hnetur, rúsínur, bláber og krydda með kanil (ekki kanilsykur) setja þá mjólk útá sem hentar þér og voila þú ert saddur langt fram eftir morgni. Það er ekkert nýtt undir sólinni að gróft korn er hollt, gróft rúgbrauð, alls kyns fræ er gott fyrir meltinguna er saðsamt vegna trefjanna. Látið ekki lágkolvetnafaraldinn fara alveg með ykkur, gróf kolvetni eru dásamleg. Svo framarlega sem við erum ekki með glútenóþol er engin rannsókn sem styður að við manneskjurnar þolum illa korn en ef þér líður betur með að skifta korninu út með grænmeti er það fínt, en verra ef þú skiftir því út með bacon eða buffi í morgunmat. Eigðu dásamlegan dag og endilega opna glugga eða hurð og hlusta á sinfoníu smáfuglanna og gleði þeirra yfir að dagurinn er eins og hann er.
Rósa Traustadóttir jógakennari og heilsuráðgjafi